Ævar Þór heimsótti 3.-5. bekk
Leikarinn og rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður, heimsótti krakkana í 3.-5. bekk í morgun og las fyrir þá úr nýútkominni bók sinni Þín eigin þjóðsaga. Bókin er skrifuð út frá þekktum íslenskum þjóðsögum þar sem sögumaður fylgist með og tekur þátt í ýmsum æsispennandi atburðarásum. Á ákveðnum tímapunktum í sögunum þarf svo lesandi að velja hvaða stefnu sagan á að taka. Krakkarnir skemmtu sér konunglega við að hlusta á upplesturinn. Að upplestrinum loknum voru margar hendur á lofti og Ævar spurður spjörunum úr en hann kvaddi svo krakkana með því að afhenda þeim bókamerki. Krakkarnir í 5. bekk sýndu honum loks afrakstur lestrarátaksins þeirra en þeir hafa fyllt í sameiginlegt vísindaglas og hengt tilraunaglös á vísindatré, eitt fyrir hverja bók sem þeir lesa. Ævari þótti mikið til þess koma. Eiginlegu lestrarátaki 5. bekkjar er lokið en Lestrarátak Ævars vísindamanns stendur yfir til 1. febrúar. Við hvetjum því nemendur okkar eindregið til að taka þátt með því að skrá þrjár bækur sem þeir lesa á þar til gerða miða og skila í kassann á bókasafni skólans. Heppnir þátttakendur gætu orðið persónur í næstu bók Ævars. Fleiri myndir af heimsókn Ævars Þórs má sjá í myndasafni.