20. mars 2023

Að lokinni Árshátíð

Árshátíð Heiðarskóla fór fram föstudaginn 17. mars. Að venju er árshátíð nemenda þrískipt, 1. – 4. bekkur, 5. – 7. bekkur og svo 8. – 10. bekkur. Í ár var þema árshátíðarinnar Ævintýri og voru atriði nemenda glæsileg og greinilega mikið lagt í þá vinnu sem þar fór fram. 

Á árshátíð 1. - 4. bekkjar var mikið um söngatriði en einnig voru leikrit sýnd. 1. bekkingar þreyttu frumraun sína á sviði og sungu lög úr ýmsum ævintýrum með leikrænum tilþrifum.  2. bekkur sýndi hvað í honum býr með kröftugum söng úr leikritinu Ávaxtakarfan. Þriðji bekkur var með leikrit úr ævintýri Galdrakarlsins í Oz þar sem leikhæfileikar nemenda fengu að njóta sín en þar voru einnig nemendur sem sinntu tæknimálum á meðan leiksýning fór fram. 4. bekkur EA sýndi leikritið Litla ljóta lirfan og 4. bekkur IR sýndi leikrit um ævintýri í Ævintýri. Hjá 4. bekk voru einnig nemendur sem sinntu tæknimálum.

Kynnar á árshátíð yngsta stigs voru þau Snædís og Brynjar Kári. 

Á miðstigi mættu reynslumiklir sviðslistamenn til leiks og var hvert leikritið af fætur öðru frábært. 5. bekkingar sýndu nutu sín á sviðinu og hugsuðu út fyrir kassann í leikritagerð. Nemendur í 5. KSK voru með leikrit sem hét Okkar eigin ævintýri og sýndu þau sjálf eftir 30 ár. 5. HB sýndi leikrit um Rauðhettu og gengin tvö, uppfærsla ef Rauðhettu og úlfinum. Nemendur í 6. bekk sýndu sínar allra bestu hliðar í leik og söng, 6. HS var með frumsamið leikrit og 6.SM voru með leikþátt úr myndinni Matilda. Að lokum komu 7. bekkirnir fram. 7. UB sýndi atriði úr Lísu í Undralandi og 7. SB var með frumsamið leikrit sem heitir Ævintýrabókin.

Kynnar á miðstigs árshátíðinni voru þeir Jón Ingi og Gunnar Helgi.

Á unglingastigi var leikritið „Þú átt skilaboð“ frumsýnt. Leikritið er byggt á ævintýrinu um Öskubusku.  Skemmst frá því að segja að unglingarnir stóðu sig frábærlega vel og vakti leikritið og frammistaða þeirra mikla lukku. Stóran part af leikmyndinni höfðu nemendur í leikmyndavali unnið með aðstoð Guðrúnar Maríu. Leikstjórn var í höndum þeirra Daníellu, Estherar og Guðnýjar og eiga þær mikið hrós skilið fyrir vel unnin störf. Í vikunni fara fram opnar kvöldsýningar á verkinu og verða þær auglýstar fljótlega.

Nemendur sem og starfsfólk hafa lagt mikla vinnu í það að undirbúa árshátíðardaginn og gera hann sem glæsilegastan. Eiga þeir skilið bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Skólinn var fagurlega skreyttur marglitum pappírsblómum, fuglum, skýjum, regnbogum og ævintýraverum. Skreytingateymi starfsmanna á heiðurinn af undirbúningi, framkvæmd og uppsetningu þeirra í samvinnu með nemendum. Síðast en ekki síst ber að nefna foreldra og aðra gesti. Við færum þeim okkar bestu þakkir fyrir mjög svo góða mætingu. Það er gaman þegar við fáum gesti í hús og það fylltist af frábærri orku og lífi. Við erum sannarlega stolt af árshátið Heiðarskóla 2023.

 

Myndir af árshátíðinni má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan