30. nóvember 2015

3. sæti í verkefninu Aðgengi að lífinu!

Þær Birna Valgerður, Eva María, Lovísa Íris og Sædís Ósk tóku í dag við 3. verðlaunum í liðakeppninni Aðgengi að lífinu sem MND félagið á Íslandi og SEM samtökin, með stuðningi velferðar-, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fóru af stað með í haust meðal 10. bekkinga á landsvísu.

Verðlaunaafhendingin fór fram í Orkuveitu Reykjavíkur þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin. Verðlaunin sem stúlkurnar fengu voru 10.000 fyrir hverja þeirra og gjafabréf fyrir hópinn á Hamborgarafabrikkuna.

Verkefnið fól í sér könnun á aðgengismálum hreyfihamlaðra í nærumhverfi ungmennanna. Tilgangur verkefnisins var að efla skilning þeirra á aðstæðum hreyfihamlaðra, stuðla að bættu aðgengi hreyfihamlaðra með lausnum og skapa jafnréttisgrundvöll á milli hreyfihamlaðra og óhreyfihamlaðra.

Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins og Arnar Helgi Lárusson formaður Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra heimsóttu nemendur okkar í 10. bekk fyrr í mánuðinum og kynntu verkefnið og aðstæður hreyfihamlaðra. Verkefnið fór þannig fram að hópnum var afhentur hjólastóll í einn sólarhring til þess að greina hindranir í nærumhverfi sínu, til dæmis að komast í tómstundastarf, fara í verslanir, komast á bókasafn og svo framvegis. Hver hópur fékk svo viku til að vinna að úrslausninni og henni mátti skila á þann hátt sem hópurinn sjálfur kaus. Flestir völdu að búa til myndbönd og það gerðu einmitt okkar stúlkur. Fleiri hópar í Heiðarskóla tóku þátt þó að ekki hafi allir náð að skila inn sínu verkefni fyrir tilsettan tíma. Nemendur okkar voru áhugasamir um verkefnið og bendir allt til þess að það hafi verið þeim öllum lærdómsríkt.

Í ár var keppnin hnífjöfn og sáu aðstandendur keppninnar sig knúna til að bæta við tveimur verðlaunasætum. 5 hópar voru því boðaðir á verðlaunaathöfnina og fengu þeir allir verðlaun. Gaman er að segja frá því að auk stúlknanna í Heiðarskóla lentu einnig stúlkur úr Njarðvíkurskóla í verðlaunasæti.

Við óskum þeim Birnu Valgerði, Evu Maríu, Lovísu Írisi og Sædísi Ósk innilega til hamingju með árangurinn. Myndbandið þeirra verður að öllum líkindum sett á Youtube á næstu dögum. 

 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan