4. júní 2019

Skólaslit 2019 og útskrift 10. bekkjar

Ánægjulegu skólaári var slitið á þessu 20 ára afmælisári skólans í dag, þriðjudaginn 4. júní. Skólaslitin voru að venju þrískipt, fyrir 1.-3. bekk, 4.-6. bekk, 7.-9. bekk og svo útskrift 10. bekkjar. Eftirtaldir nemendur glöddu gesti með vönduðum tónlistarflutningi á skólaslitum í 1.-9. bekk: Karl Ágúst Ólafsson í 2. bekk, Jón Ingi Garðarsson og Ruth Páldís Eiðsdóttir í 3. bekk, Emilía Sigrún Hauksdóttir í 5. KJ, Hanna Katrín Eiðsdóttir og Guðlaug Emma Erlingsdóttir í 5. HT, Viktoría Erla Magnúsdóttir í 7. SRS og þær Ásdís Bára Eðvaldsdóttir, Ragnheiður Anna Jónsdóttir og Þórunn Anna Einarsdóttir í 7. EN.

1.-6. bekk var hverjum árgangi eða bekk afhent viðurkenningarskjal með umsögnum og hvatningarorðum starfsfólks. Í 7.-9. bekk voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í bóklegum greinum, í list- og verkgreinum, framfarir í námi, dönskuverðlaun sem danska sendiráðið gefur og fyrir árangur í Skólahreysti og skólaíþróttum. Velunnarar skólans kostuðu einnig verðlaun til handa nemanda í 9. bekk sem sýnt hefur einstaka eljusemi og þrautseigju í bóklegu námi.

Á útskrift 10. bekkjar sungu þær Sóley Birta Ólafsdóttir og Steinunn Ástrós Sighvatsdóttir lagið Say Something við undirspil Guðmundar Hermannssonar. Þær Eygló og Þóra, umsjónarkennarar, töluðu til nemenda sinna og annarra gesta og Andri Sævar, formaður nemendaráðs, flutti erindi fyrir hönd nemenda. Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla sem Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar og afhendir. Heiðursnemandinn í ár er Eyþór Jónsson en að mati kennara og starfsmanna hefur hann verið sérstaklega jákvæður, kurteis og heiðarlegur í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum. Í fyrsta sinn gáfu skólinn og foreldrafélagið nemendum útskriftartrefla sem þeim voru afhentir ásamt rós áður en þeir tóku við vitnisburðarskjölum sínum. Þá var komið að því að Bryndís Jóna, skólastjóri, segði skólárinu 2018 - 2019 slitið og voru nemendur í 10. bekk þar með útskrifaðir úr grunnskóla. Að skólaslitum loknum gæddu viðstaddir sér á gómsætum veitingum sem þær Ólöf Jónsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir höfðu galdrað fram af sinni alkunnu snilld.

Þrír starfsmenn fengu í dag gjöf fyrir 10 ára starf í Heiðarskóla en það voru þær Bryndís Jóna Magnúsdóttir, Guðbjörg Lilja Jónsdóttir og Íris Ástþórsdóttir. Hvorki fleiri né færri en átta starfsmönnum var svo veittur þakklætisvottur fyrir 20 ára starf í Heiðarskóla. Voru slíkar gjafir gefnar í fyrsta skiptið en þetta er fólkið sem hefur starfað í Heiðarskóla frá upphafi. Þetta eru þau Auður H. Jónatansdóttir, Brynjar Harðarsoon, Guðmundur Hermannsson, Guðný Kristjánsdóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Margrét Jónsdóttir, Ólöf Jónsdóttir og Sigurbjörg Guðmundsdóttir.

Fleiri myndir má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan